Þrír menn í Kaliforníuríki rændu avókadó að virði 300 þúsund Bandaríkjadala eða því sem jafngildir ríflega 30 milljónum íslenskra króna. Mennirnir unnu hjá fyrirtækinu Mission Produce sem ræktar ávöxtinn og er einn af stærstu avakadóframleiðendum Kaliforníuríkis.

Líkt og áður hefur verið greint frá hefur verð á avókadó ríflega tvöfaldast í verði frá því á sama tíma og í fyrra. Er það afleiðing aukinnar eftirspurnar, en einnig vegna lakari uppskeru í Mexíkó, Perú og Kaliforníu.

Forstjóri fyrirtækisins Mission Produce, Steve Barnard, sagði að kassinn af avókadó seldist iðulega á um 50 dollara eða ríflega 5 þúsund krónur, en að þremenningarnir hafi verið að selja kassann á hálfvirði. Haft er eftir John Franchi, aðstoðarvarðstjóra, að avókadóin væru mjög vinsæl. „Allir elska avókadó,“ sagði lögreglumaðurinn og bætti við að lögreglan tæki slíkum glæpum mjög alvarlega.