Ölgerðin Einstök er með yfirgnæfandi meirihluta á öllum bjórútflutningi frá landinu að sögn Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann segir að það hafi verið frekar mikil aukning á útflutningi fyrirtækisins á bjór til Bretlands. Fyrirtækið flutti 30 til 40 þúsund bjórkassa til Bretlands í fyrra og aukningin var 30% frá árinu 2014 „Þó kom smá bakslag í kringum Brexit-atkvæðagreiðsluna, þegar pundið hrundi skyndilega. Þá staðnaði vöxturinn aðeins, en við erum með ágætis vöxt aftur núna,“ segir Guðjón í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég held að við getum fullyrt miðað við Hagstofutölurnar að við séum með um 80% af öllum bjór frá Íslandi til Bretlands. Bretlandsmarkaður er markaður sem fleiri flytja út til, sem betur fer. Á mörgum mörkuðum erum við eina bjórtegundin frá Íslandi í einhverju magni. Það er sem betur fer ágætis flóra þar,“ bætir hann við.

Talsverður vöxtur hefur verið á útflutningi ölgerðarinnar almennt. Frá því að fyrirtækið byrjaði að flytja út bjór árið 2011 hefur það séð vöxt á öllum sínum mörkuðum. „Við höfum verið ansi lánsöm með að þetta hefur gengið mjög vel. Og það hefur fylgst að í Bretlandi fyrir utan það sem ég nefndi áðan, tölurnar í kringum Brexit,“ segir framkvæmdastjórinn.

Innreið í breskar verslanir og bari

Guðjón segir að fyrirtækið sé búið að koma sér nokkuð vel fyrir í Bretlandi. „Við erum komin eitthvað inn í Waitrose, sem og í Harvey Nichols og Majestic sem er keðja þar sem við seljum talsvert magn af bjór. Einnig erum við mjög víða á börum í Bretlandi, þeir eru margir og mjög fjölbreyttir. Nýlega hófum við sölu á bjórkútum til Bretlands, það er talsverður vöxtur í því,“ segir Guðjón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .