Stjórn PCC BakkiSilicon hf harmar stöðvun framkvæmda á vegum Landsnet og segja hana geta valdið fyrirtækinu umtalsverðu fjárhagstjóni.

Á föstudag felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tvo bráðabirgðaúrskurði sem valda því að yfirstandandi framkvæmdir við Þeistaríkjalínu 1 og Kröflulínu 4 hafa verið stöðvaðar tímabundið á meðan nefndin fjallar um kæru Landverndar. Snýst hún um ákvörðun sveitastjórnar Þingeyjarsveitar um að gefa út leyfi fyrir framkvæmdunum.

Getur lagt 300 milljón Bandaríkjadala fjárfestingu í hættu

Kalla þeir stöðuna sérkennilega og segja fyrirtækið ekkert koma að atburðarásinni, sem lagt geti í hættu 300 milljóna bandaríkjadala fjárfestingu fyrirtækisins í Sílikonverksmiðju á Bakka.

„Það er að okkar mati mjög sérkennilegt að hægt sé að fá framkvæmdir stöðvaðar sem hlotið hafa öll tilskilin leyfi og haft getur í för með sér það uppnám sem nú er orðið. Ef okkur hefði grunað að svona færi hefðum við væntanlega ekki byrjað verklegar framkvæmdir,“ segir Hafsteinn Viktorsson framkvæmdastjóri PCC á Íslandi í yfirlýsingu.

Íslensk stjórnvöld skuldbundin að tryggja framgang verkefnisins

Bendir fyrirtækið á grein í fjárfestingarsamningi fyrirtækisins við íslensk stjórnvöld sem segir að ríkisstjórn Íslands muni tryggja að „engar ráðstafanir verði gerðar sem kynnu að takmarka eða hafa önnur neikvæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og starfsemi félagsins eða með öðrum hætti hindra að félagið og PCC SE njóti þeirra réttinda og ávinnings sem leiða af fjárfestingarsamningi þessum.“

Jafnframt leiðréttir fyrirtækið það að í kæru Landverndar komi fram að orkuþörf verksmiðjunnar sé allt að 58 MW, þegar hið rétta sé að hún sé 54MW ef miðað sé við 36 kt framleiðslu, en í umhverfismati sé miðað við 66 kt framleiðslu sem krefjast mun 100 MW.

Ekki eingöngu vegna sílikonverksmiðju

„Eðli málsins samkvæmt mun PCC BakkiSilicon ekki blanda sér í deilu málsaðila enda þótt deilan varði PCC miklu í bráð og lengd. Ég vil þó benda á að þegar ákvörðun var tekin um að hætta við byggingu og rekstur álvers á Bakka skapaðist breið samstaða um það að í staðinn yrði lögð áhersla á uppbyggingu fleiri en smærri fyrirtækja á iðnaðarsvæðinu á Bakka,“ segir Hafsteinn.

„PCC tók í kjölfarið ákvörðun um að taka þátt í þeirri atvinnuuppbyggingu ásamt fleiri aðilum sem sýnt hafa áhuga á uppbyggingu þar og vonandi verður að veruleika fyrir íbúa svæðisins. Það hefur því aldrei staðið til að þær framkvæmdir sem Landsneti hefur verið gert að stöðva beinist eingöngu að þörfum PCC. Þær hafa þvert á móti að markmiði að geta uppfyllt orkuþörf fleiri atvinnufyrirtækja sem vilja hefja rekstur á Bakka,“ segir Hafsteinn.

Fjórum mánuðum fyrir gildistöku náttúruverndarlaga

óskað var eftir leyfum fyrir lagningu raforkulínanna fjórum mánuðum eftir gildistöku breytinga á náttúruverndarlögum þann 15. nóvember 2015. Gaf Skútustaðahreppur út framkvæmdaleyfi þann 2. maí og Þingeyjarsveit 14. júní, hófust framkvæmdir við undirbúning línulagnarinnar í kjölfarið.