Airport Associates hyggst segja upp 315 manns í kjölfar gjaldþrots Wow air, en flugfélagið var stærsti viðskiptavinur félagsins á Keflavíkurflugvelli. Vísir greinir frá. Félagið er alls með um 400 starfsmenn en endurráða á marga þeirra.

„Þetta kallar á miklar breytingar. Við gerum ráð fyrir því að endurráða marga af þessum 315 aftur. En, þetta er hugsað til að milda höggið. Við þurfum að endurskipuleggja allt vaktafyrirkomulag. Nú er til dæmis ekkert að gera á þeim tíma sólarhringsins þar sem í nógu var að snúast. Við munum bjóða þessum starfsmönnum vinnu aftur en þá hugsanlega miðað við minna starfshlutfall," hefur Vísir eftir Sigþóri Kristini Skúlasyni, forstjóra Airport Associates.

Sigþór sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að félagið tapaði um helmingi verkefna sinna vegna gjaldþrots Wow air.

„Fjárhagslega höggið fyrir okkur felst í því að þurfa að keyra starfsemina niður og verður sá tími sem það tekur kostnaðarsamur, því auðvitað verðum við með of mikið af starfsfólki. Við munum leita allra leiða til þess að gera þetta eins mildilega og hægt er en við munum þurfa að breyta ýmsu í rekstrinum til þess að aðlaga okkur að þessum nýja veruleika,“ sagði Sigþór í gær.