Hollusta starfsólks við eigin vinnustað hefur ekki náð sér á strik eftir hrun þrátt fyrir að stjórnendur hafi eflt nærumhverfi starfsfólks meira en nokkru sinni fyrr. Þetta kom fram í máli Tómasar Bjarnasonar, sviðsstjóra starfsmannarannsókna hjá Gallup á fundi í gær í Hannesarholti þar sem ný starfsmanna- og vinnustaðarannsókn Gallup var kynnt.

Í rannsókninni kemur einnig fram að yngra fólk kalli mikið eftir skýrum tilgangi í starfi sínu og sú krafa er mjög samofin tryggð starfsmanna en 32% af aldurshópnum 25 til 34 hafa skipt um starf á síðustu tveimur árum og enn fleiri hafa skipt um starf í eftirsóknaverðan vinnustað.

Á fundinum var fjallað um hvernig stjórnendur geta skapað eftirsóknarverðan vinnustað, en það felst ávallt mikil áskorun í því að halda í starfsfólk einkum á tímum uppsveiflu. Framsögumenn á fundinum auk Tómasar voru Haukur Ingi Guðnason og Marta Gall Jörgensen sérfræðingar á starfsmannarannsóknasviði Gallup á Íslandi.

Fram kemur í rannsókn Gallup að helgun starfsfólks hafi aukist og hefur hún aldrei mælst hærri síðan árið 2000. Á sama tíma hefur tryggð starfsfólks, þ.e. líkur fólks á að það muni leita að nýju starfi á næstu 12 mánuðum ekki mælst lægri. „Það er spurning hvort stjórnendur á íslenskum vinnumarkaði séu að leggja áherslu á réttu atriðin. Eitt af þeim atriðum sem ekki hafa náð sömu hæðum og fyrir hrun eru tækifæri fólks til að þróast í starfi,“ sagði Tómas, sem fjallaði einnig um ímynd fyrirtækja sem líka hafi mikil áhrif á hollustu og ánægju starfsfólks. Þar eru áhrifin jafnvel enn meiri en áður. „Slæm umfjöllun og ímynd veikir mat starfsmanna á viðhorfi sínu til fyrirtækisins. Ytri þættir geta því haft mikil áhrif á innri þætti fyrirtækis. Rétt viðbrögð stjórnenda eru lykilatriði í þannig aðstæðum,“ sagði Tómas ennfremur. Tómas fór yfir tvær leiðir til að gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari, það að efla starfsfólkið og bæta samskiptin. Hvort tveggja eru mikilvægir þættir sem styrkja sambandið við starfsfólk og gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari, sagði Tómas.

Marta Gall sagði í erindi sínu að einn af lykilþáttunum í að skapa eftirsóknarverðan vinnustað er að horfa á og nýta styrkleika fólks í starfi. „Á þennan hátt geta stjórnendur byggt upp eftirsóknarvert starfsumhverfi til að laða að, virkja og halda í gott fólk,“ sagði Marta. Hún kynnti niðurstöður nýrrar bandarískrar Galluprannsóknar á framúrskarandi stjórnendum. Í henni kemur fram að þeir eru styrkleikamiðaðir gagnvart starfsfólki og sjálfum sér auk þess sem þeir gera sér grein fyrir hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á starfsfólk. „Styrkleikamiðuð stjórnun eykur framlag og tryggð starfsfólks og eykur jafnframt starfsánægju og vellíðan,“ sagði Marta. Hún sagði jafnframt að lykilatriði til að ná árangri væri sú að stjórnandinn sjálfur væri meðvitaður um eigin styrkleika og styrkleika teymisins.

Haukur Ingi Guðnason fjallaði um markmiðasetningu í erindi sínu og það sem ber að varast í þeim efnum. „Markmið eru mikilvæg leið til að breyta hegðun fólks, en séu þau ekki sett rétt fram geta þau jafnvel dregið úr frammistöðu starfsfólks.“ Hann sagði að markmið geta verið of háleit eða of létt. „Nauðsynlegt er að skoða markmiðasetningu einstaklingsbundið, mörg dæmi eru um notkun stjórnenda á niðurstöðumarkmiðum sem hafa jákvæð áhrif til skamms tíma en neikvæð áhrif til lengri tíma litið,“ sagði Haukur Ingi enn fremur.

Gallup ungt fólk skiptir um starf
Gallup ungt fólk skiptir um starf