Ætla má að verðmæti eignarhlutar Jóns von Tetschners í norska tæknifyrirtækinu Opera Software nemi 160 milljónum norskra króna, jafnvirði um 3,3 milljarða íslenskra. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að Jón á 3,5% hlut í félaginu. Hann stofnaði Opera Software árið 1995 og var forstjóri fyrirtækisins fram til ársins 2010.

Í viðtali við Jón í Morgunblaðinu sagði að þegar hann hætti hafi hann átt 15% í Opera Software. Nú á hann 3,5% hlut. Hlutabréf félagsins eru skráð í norsku kauphöllina. Gengi bréfanna stendur nú í 37,5 norskum krónum á hlut. Markaðsvirði félagsins nemur 4,6 milljörðum norskra króna, jafnvirði 93,5 milljarða íslenskra króna.