Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka með 24,6 prósent fylgi, en það er þó 1,5 prósentustigum minna en í síðustu könnun. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 35 prósent sem er mun lægri stuðningur en aðrar ríkisstjórnir hafa mælst með við upphaf stjórnarsetu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun MMR sem fór fram dagana 12. til 26. janúar 2017.

Vinstri grænir koma á eftir Sjálfstæðisflokknum með 22 prósent fylgi en það er minnkar um 2,3 prósentustig milli kannanna. Píratar mælast með 13,6 prósent fylgi, sem er einu prósentustigi minna en í síðustu mælingu.

Fylgi Framsóknarflokksins mældist 12,5 prósent í könnun MMR og eykst nokkuð milli kannanna, en í síðustu könnun mældist fylgið 10,9 prósent. Fylgi Samfylkingarinnar eykst jafnframt og mældist nú 7 prósent, samanborið við 6,4 prósent í síðustu könnun.

Björt framtíð bætir einnig við sig fylgi milli kannanna, en nú mældist það 7 prósent og mældist 6,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi Viðreisnar helst nokkuð stöðugt milli kannana og mælist 6,8 prósent. Aðrir flokkar mælast með 6,6 prósent fylgi samanlagt.