Engar eignir fundust í þrotabúi Sparisjóðsins í Keflavík upp í tæplega 36,2 milljarða króna (nánar tiltekið  36.196.434.814 króna) kröfur í það. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á þrotabúi sparisjóðsins hafi lokið 2. september síðastliðinn.

Fjármálaeftirlitið tók rekstur SpKef yfir seint í apríl árið 2010 og tók Landsbankinn hann yfir í mars ári síðar. Deilt var um mat á eignum SpKef og varð niðurstaðan sú að tæplega 20 milljarða króna misræmi var á mati Landsbankans og ríkisins á verðmæti þeirra.

Úrskurðarnefnd um yfirtöku Landsbankans á SpKef sparisjóði komst svo að þeirri niðurstöðu í fyrrasumar að ríkið ætti að greiða Landsbankanum samtals 19,2 milljarða króna vegna ríkisábyrgðar á innstæðum í SpKef.