Heildarvelta í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni nam 5,8 milljörðum króna.

Munaði þar mest um viðskipti 365 miðla en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag þá seldu 365 miðlar allan 11% hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða og keyptu í staðin rúman 3% hlut í Högum fyrir 1,75 milljarða.

Eins og gefur að skilja voru mest viðskipti með bréf áðurnefndra félaga. Heildarvelta viðskipta í bréfum Sýnar námu rétt rúmum 2 milljörðum og heildarvelta viðskipta í Högum nam rétt tæplega 2 milljörðum.

Gengi bréfa Origo hækkaði mest en bréf félagsins hækkuðu um 5,37% í 87 milljóna króna viðskiptum. Næst mesta hækkunin var á bréfum N1 en bréf félagsins hækkuðu um 1,88% í 331 milljóna króna viðskiptum.

Af félögum í kauphöllinni lækkaði gengi bréfa í Arion banka lang mest en bréf bankans lækkuðu um 5,76% í 345 milljóna króna viðskiptum. Greint var frá því í morgun að bankinn hafi tapað stórfé á falli Primera Air .