365 miðlar hf., sem er eigandi Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins og Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins, hafa undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Póstmiðstöðvarinnar hf. af seljendum Stahan II ehf., Fiskisundi ehf og Hannesi Hannessyni. Þetta kemur fram á vef mbl .

Kaupsamningurinn er gerður með ýmsum fyrirvörum, meðal annars um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Póstmiðstöðin, sem er dreifingaraðili Fréttablaðsins, mun með kaupunum sjá um dreifingu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk fleiri blaða.

Kaupverð hlutanna er ekki gefið upp og eignarhlutföll að kaupunum loknum verða þau að Árvakur fer með 51% eignarhlut og 365 miðlar 49%.

„Alþekkt er að rekstrar­umhverfi fjölmiðla á Íslandi hefur verið erfitt. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að eðlileg hagræðing fái að eiga sér stað. Þessi kaup Árvakurs og 365 miðla eru liður í því að tryggja að áfram verði gefin út öflug dagblöð á Íslandi, og að innlendir aðilar, stórir og smáir hafi aðgang að öflugri dreifingarþjónustu sem veitir einokunarþjónustu ríkisins sam­keppni og aðhald“ er haft eftir Ingibjörgu S. Pálmadóttur, forstjóra 365 miðla, í frétt mbl.

Haft er eft­ir Har­aldi Johann­essen, fram­kvæmda­stjóra Árvak­urs á vef mbl: „Er­lend­is hef­ur þró­un­in verið sú að dag­blöð hafa sam­nýtt dreifi­kerfi til að tak­ast á við erfiðar markaðsaðstæður. Hér á landi er ekki síður þörf á að fara þessa leið þegar haft er í huga að ís­lenski fjöl­miðlamarkaður­inn er smár, hann býr við mikla er­lenda sam­keppni, auk harðrar sam­keppni við um­svifa­mikið rík­is­fyr­ir­tæki. Ég von­ast til að samn­ing­ur­inn sem hér er kynnt­ur styrki rekst­ur Árvak­urs og Póst­miðstöðvar­inn­ar og mun leit­ast við að tryggja að þeir starfs­menn sem samn­ing­arn­ir snerta helst verði fyr­ir sem minnst­um óþæg­ind­um þeirra vegna og muni sem flest­ir njóta ávinn­ings af þeim breyt­ing­um sem samn­ing­arn­ir munu hafa í för með sér."