365 miðlar hafa óskað eftir hluthafafundi í Skeljungi þar sem fara eigi fram stjórnarkjör. Eins og greint var frá í dag hafa 365 miðlar eignast 10,01% hlut í Skeljungi og eru félagið því orðið stærsti einstaki hluthafi þess.

Forsvarsmenn 365 miðla segja talsverðra breytinga hafa orðið í hluthafahópi félagsins nýverið og því sé rétt að umboð stjórnar verði endurnýjað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skeljungi.

Þar segir jafnframt að í hlutafélagalögum og samþykktum Skeljungs komi fram að boða skuli til hluthafafundar ef hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjárins, krefjist þess skriflega og greina frá ástæðum þess. Samkvæmt sömu greinum hefur stjórn 14 daga til að senda út fundarboð. Stjórn Skeljungs muni því boða til hluthafafundar á næstunni.

365 miðlar er að mestu í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Félagið hefur selt hluti í Högum samhliða kaupum í Skeljungi. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, sóttist eftir sæti í stjórn Haga í byrjun þessa árs en hlaut ekki brautargengi.

Tæpur mánuður er frá aðalfundi Skeljungs þar sem ný stjórn var kjörin. Hana skipa nú:

  • Jens Meinhard Rasmussen, formaður stjórnar.
  • Birna Ósk Einarsdóttir, varaformaður stjórnar.
  • Ata Maria Bærentsen.
  • Baldur Már Helgason.
  • Kjartan Örn Sigurðsson.