*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 15. janúar 2018 08:34

38 milljarða lán á 2008 kjörum

Íslandsbanki gefur út skuldabréf fyrir 300 milljónir evra á bestu kjörum sem íslenskt fjármálafyrirtæki hefur fengið frá 2008.

Ritstjórn
Jón Guðni Ómarsson er fjármálastjóri Íslandsbanka
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hefur gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra, eða andvirði um 38 milljarða íslenskra króna, til 6 ára með innköllunarheimild af hálfu útgefenda eftir 5 ár (6NC5). Bréfið ber 1.125% fasta vexti sem jafngildir 75 punkta álagi yfir millibankavexti í evru sem eru bestu kjör sem íslensk fjármálastofnun hefur fengið erlendis frá árinu 2008.

Fjórföld eftirspurn var eftir útgáfunni sem nam 1.255 milljónum evra frá 121 fjárfesti. Skuldabréfin voru seld til fjölbreytts hóps fjárfesta, m.a. frá Bretlandi, meginlandi Evrópu, Norðurlöndunum og Asíu. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllina á Írlandi þann 19. janúar 2018. 

Viðskiptin marka tímamót í rekstri Íslandsbanka en um er að ræða lengstu skuldabréfaútgáfu og bestu kjör erlendis sem íslensk fjármálastofnun hefur gefið út frá árinu 2008. 

Útgáfan verður gefin út undir 2 milljarða dollara Global Medium Term Notes (GMTN) útgáfuramma bankans. Grunnlýsingu GMTN rammans ásamt viðaukum má finna á vefsíðu fjárfestatengsla: islandsbanki.is/fjarfestatengsl  

„Þróun á vaxtaálagi á útistandandi skuldabréfum bankans í erlendri mynt hefur verið einkar hagstæð síðustu misseri og er það merki um mikið traust fjárfesta til Íslandsbanka og íslensks efnahagsumhverfis," segir Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka

„Útgáfan í dag ber þess svo sannarlega merki en við erum einkar ánægð með þann mikla áhuga sem við fundum hjá fjárfestum." Umsjónaraðilar útboðsins voru Goldman Sachs International, J.P. Morgan og Nomura.