Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,37% niður í 1.670,31 stig hlutabréfaviðskiptum dagsins, sem námu rétt tæplega 400 milljónum króna.

Skuldabréfaviðskiptin námu hins vegar rúmlega 40 milljörðum króna, og hækkaði Aðalvísitala skuldabréfa um 0,05% upp í 1.361,50 krónur. Hin mikla velta á skuldabréfamarkaði skýrist að stærstum hluta af uppkaupum ríkisins á óverðtryggða ríkisskuldabréfaflokknum, RIKH 18 1009 fyrir 37 milljarða króna að nafnvirði.

Einu tvö fyrirtækin sem hækkuðu í viðskiptum í dag voru Hagar sem hækkuðu um 0,27% upp í 37,65 krónur hvert bréf í 13,5 milljóna viðskiptum, og HB Grandi sem hækkuðu um 0,15%, upp í 33,35 krónur í 16 milljón króna viðskiptum.

Mesta lækkunin var á gengi bréfa Icelandair, sem lækkuðu um 1,25% niður í 16,80 krónur hvert bréf í 53 milljón króna viðskiptum. Næst mest lækkaði gegni bréfa Símans, eða um 1,19% í 22 milljón króna viðskipti, og var lokagengi bréfa félagsins 4,14 krónur.

Mestu viðskiptin voru svo með bréf Skeljungs, eða fyrir 155 milljónir króna tæpar, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag seldi Arion banki fyrir um 110 milljónir í olíufyrirtækinu. Lækkaði gengi bréfa félagsins um 0,61%, niður í 7,37 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,3% í dag í 0,4 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,1% í dag í 2,7 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,2 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 2,5 milljarða viðskiptum.