Á árinu 2017 var töluverð fjölgun á íbúðum sem annað hvort var lokið við eða hafin bygging á, á höfuðborgarsvæðinu, frá árinu 2016. Var hafin bygging á 2.200 íbúðum á síðasta ári, og lokið við að byggja 1.370 íbúðir. Á árinu 2016 voru samsvarandi tölur 1.170 íbúðir sem voru kláraðar og 870 sem byrjað var að byggja.

Í marsmánuði voru í heildina 4.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt talningu Samtaka Iðnaðarins. En þó flestar þeirra séu, eðli málsins samkvæmt, í byggingu í stærsta sveitarfélaginu Reykjavík, þá bendir Hagsjá Landsbankans á að ef miðað er við hverja 1.000 íbúa eru einungis Hafnarfjörður og Seltjarnarnes að byggja færri íbúðir.

Bendir greiningardeild bankans á að staðan á Seltjarnarnesi ætti ekki að koma á óvart, enda sveitarfélagið nánast fullbyggt. Mosfellsbær er hins vegar það sveitarfélag þar sem flestar íbúðir eru í byggingu, á hverja 1.000 íbúa, eða um 52. Þó bærinn sé mun fámennari en Garðabær er heildarfjöldi íbúða í byggingu þar svipaður, eða 594 í Garðabæ, en 550 í Mosfellsbæ.

Á eftir 1.726 íbúðum sem eru nú í byggingu í Reykjavík er Kópavogur að byggja 1.048 íbúðir, en íbúar bæjarins eru tæplega 30% af íbúum höfuðborgarinnar. Loks byggir Hafnarfjörður nú 150 íbúðir og Seltjarnarnes 25.