*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Innlent 29. ágúst 2018 16:25

401 milljóna hagnaður Almenna leigufélagsins

Rekstrartekjur Almenna leigufélagsins voru 1.253 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2018. Hækkun rekstrartekna frá sama tímabili í fyrra nam 21%.

Ritstjórn
María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins.
vb.is

Rekstrartekjur Almenna leigufélagsins voru 1.253 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2018. Hækkun rekstrartekna frá sama tímabili í fyrra nam 21%. Þá var EBITDA (rekstarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og fjármagnsliði) 675 milljónir króna fyrir tímabilið og EBITDA hlutfall leiðrétt fyrir einskiptisliðum var 57%. Heildarafkoma tímabilsins eftir skatta nam 401 milljónum króna.

Heildareignir samstæðunnar námu 45.352 milljónum króna í lok júní og þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 44.709 milljónir króna. Vaxtaberandi skuldir námu 28.619 milljónum króna og eigið fé samstæðunnar var 12.684 milljónir.

"Góður gangur hefur verið í rekstri Almenna leigufélagsins það sem af er ári og afkoma fyrri árshelmings eykst um tæplega 600 m.kr. milli ára, auk þess sem handbært fé frá rekstri, eftir greiðslu vaxta, nemur 328 m.kr., sem er aukning um 300 m.kr. frá sama tímabili í fyrra. 

Við finnum fyrir miklum meðbyr og ánægju meðal viðskiptavina okkar með þá þjónustu sem við bjóðum. Það er allra hagur að hér sé byggður upp fjölbreyttur húsnæðismarkaður sem mætir þörfum ólíkra þjóðfélagshópa. Starfsemi öflugra leigufélaga, sem bjóða viðskiptavinum sínum betri þjónustu en áður tíðkaðist, er mikilvægur þáttur í því. Áætluð samanlögð markaðshlutdeild stærri leigufélaga sem starfa á almennum markaði er í dag um 12%.

Miklar breytingar urðu hjá félaginu á síðasta ári í kjölfar mikils ytri vaxtar. Þegar hefur náðst góður árangur í að samþætta og hagræða í rekstri þeirra stóru fasteignasafna sem yfirtekin voru. Það sést best á því að EBITDA fyrri árshelmings eykst um 27% frá árinu áður. Einnig sjáum við töluverð jákvæð áhrif af hagstæðari fjármögnun á rekstur félagsins, þrátt fyrir að nettó fjármagnsgjöld aukist vegna nýrra fjárfestinga og aukinnar verðbólgu miðað við samanburðartímabil.

Félagið fjárfesti í 70 íbúðum í miðborg Reykjavíkur á tímabilinu. Fjárfestingin er í takt við fjárfestingarstefnu félagsins sem hefur allt frá stofnun lagt mikla áherslu á að hafa sterka stöðu í miðbænum og aðliggjandi hverfum. Það sem gerir þessa fjárfestingu sérstaklega vel heppnaða er að um er að ræða mjög litlar íbúðir sem henta bæði til útleigu til skamms og langs tíma.

Við erum á spennandi vegferð þar sem skráning á aðalmarkað Kauphallarinnar á næsta ári er yfirlýst markmið félagsins og hefur undirbúningur fyrir skráningu þegar hafist," ef haft eftir Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins, í tilkynningunni.

Stikkorð: leigufélagið Almenna
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim