Eygló Harðardóttir velferðarráðherra kynnti  niðurstöður könnunar um viðhorf til húsnæðismarkaðarins á fundi á Grand hótel fyrir stundu. Í ræðu hennar kom fram að niðurstöður sýni ótvírætt þörf þess að styrkja leigumarkaðinn sem og að styrkja fólk í að eignast eigið húsnæði. 42% af ráðstöfunartekjum leigjenda fer í húsnæðiskostnað á meðan meðaltalið er mun lægra hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Könnunin sýnir að stærsta einstaka breytingin á húsnæðismarkaðnum á árunum 2005-2012 er aukning einstaklinga á leigumarkaði úr 13 - 23%. Ráðherra segir aukninguna er að mestu til komna vegna þess hver margir misstu húsnæði sín í kjölfarið af fjármálakreppunni. Þrátt fyrir það megi þó einnig nema viðhorfsbreytingu til fasteignamarkaðarins en fleiri kjósa nú að vera í leiguhúsnæði.

Niðurstöðurnar sýna jafnframt að leigjendur búa að meðaltali í 88,8 fermetra húsnæði á meðan þeir sem eiga húsnæði búa í tæpum 150 fermetrum.

Meirihluti telur ólíklegt að þeim takist að eignast húsnæði

Samkvæmt könnuninni telja 66% einstaklinga á leigumarkaði líklegt að þeir muni skipta um húsnæði á næstu þremur árum og 58% þeirra segja jafnframt ólíklegt að þeir eignist eigið húsnæði. Stór hluti einstaklinga á leigumarkaði eða 61,7% segja að þeir myndu frekar kjósa að kaupa sér fasteign en setja fyrir sig fjárhagsaðstæður.