Í janúar voru 281.400 gistinætur á hótelum á Íslandi sem er 43% aukning frá janúar ári áður, þegar þær voru 196.905, að því er fram kemur í frétt Hagstofunnar .

Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 17% milli ára, meðan gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 47% og voru 89% heildarfjölda gistinátta á vegum erlendra gesta í janúarmánuði.

Af þessum fjölda voru 206.500 þeirra á höfuðborgarsvæðinu, eða 73% allra gistinátta, en þar var jafnframt einnig besta herbergjanýtingin. Er það 30% aukning miðað við fyrir ári síðan, en mesta aukningin var á Austurlandi þar sem hún var 288%.

Fóru gistinæturnar á Austurlandi úr 2.557 í 9.924 en næst á eftir var 105% fjölgun á Suðurlandi úr 16.824 í 34.464
Þar á eftir komu svo Suðurnesin með 95% aukningu úr 8.980 í 17.525 gistinætur.

Loks var 62% aukning á Vesturland og Vestfjörðum úr 3.901 í 6.311 en minnsta aukningin var á Norðurlandi eða 8% og voru þær 6.644 í janúar síðastliðnum.

Næstflestar gistinætur voru svo á Suðurlandi eða um 34.500 en herbergjanýtingin ef horft er á landið allt var 61,8% sem er 12,1 prósentustiga aukning frá janúar 2016, þegar hún var 49,7%.

Bretar voru með flestar gistinæturnar, eða 87 þúsund þeirra, en Bandaríkjamenn komu næstir með 64.700 og Kínverjar svo með 16.600. Íslendingar voru hins vegar með 29.600 gistinætur.