Alls 43% sögðust óánægð með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, á móti 29% sem sögðust ánægð með störf hans. Voru þeir fleiri sem voru óánægðir með störf hans heldur en þeir sem sögðust vera hvorki ánægð né óánægð en það voru 28% þeirra sem svöruðu spurningu um málið í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins .

Spurt var hvort fólk væri mjög eða frekar ánægt eða óánægt og voru mun fleiri sem sögðust mjög óánægt, eða 26& heldur en sögðust mjög ánægt, það voru einungis 7% þeirra sem tóku afstöðu.

Tóku 89% svarenda afstöðu til spurningarinnar en könnunin var gerð samhliða könnun sem sagt var frá í fréttum í gær sem sýndi að meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata er fallinn . Fjórði samstarfsflokkurinn, Björt framtíð, býður sig ekki fram, en Viðreisn, flokkurinn sem þeir störfuðu með í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki gerir það hins vegar og gæti komið inn í meirihlutann.

Hins vegar nefndu flestir Dag þegar þeir voru spurðir hvern þeir vilja sjá sem borgarstjóra í Reykjavík, eða 45% ef einungis er tekið tillit til svara þeirra sem tóku afstöðu. Eyþór Arnalds, oddviti stærsta flokksins í borginni, Sjálfstæðisflokksins, var nefndur af 30% þeirra sem svöruðu, og Líf Magneudóttir oddviti VG og Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins voru nefnd af 4% hvor.

Þegar þessi spurning var spurð sögðust þó 42% vera óákveðin og 16% neituðu að svara.

Svör við spurningunni „Hversu ánægð/ur ertu með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra?“:

  • 23% - mjög óánægð
  • 15% - frekar óánægð
  • 25% - hvorki ánægð né óánægð
  • 19% - frekar ánægð
  • 6% - mjög ánægð
  • 5% - óákveðin
  • 6% - neita að svara

Svör við spurningu um hvern viljir þú sjá sem borgarstjóra í Reykjavík:

  • 42% - óákveðin
  • 19% - Dagur B. Eggertsson
  • 16% - neita að svara
  • 13% - Eyþór Arnalds
  • 2% - Líf Magneudóttir
  • 2% - Vigdís Hauksdóttir