Ný könnun sem Gallup gerði fyrir Félag Rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) sýnir að 44% heimila landsins eru með áskrift að Netflix. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FRÍSK.

Einnig eru 3-4% heimila með áskrift af öðrum sambærilegum veitum á borð við Google Play og Amazon Prime Video.

„Það er ljóst að notkun erlendra efnisveitna hefur aukist mjög mikið eftir að þær opnuðu fyrir löglega þjónustu hér á landi en könnun sem gerð var í desember 2015, rétt mánuði áður en Netflix opnaði formlega hér á landi, sýndi að rétt tæplega 22% heimila voru þá með Netflix.  Því má segja að notkun á erlendum myndefnisveitum hér á landi hafi tvöfaldast á einu ári,“ segir í tilkynningunni frá FRÍSK.

Þau benda jafnframt á að erlendar efnisveitur greiði ekki virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld hér á landi, hins vegar greiði íslensk sjónvarps og kvikmyndaiðnaðurinn samanlagt um 12 milljarða á ári og skapi að lágmarki 1.300 ársverk á landinu.

„Okkar félagsmenn kvíða ekki samkeppni við erlendar efnisveitur, en slík samkeppni þarf að fara fram á jafnréttisgrundvelli,“ segir Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður FRÍSK, og bætir við: „Álögur og kvaðir á innlenda aðila verða að lækka ellegar verður minna innlent efni í boði og við sitjum uppi með erlendar efnisveitur og erlent efni. Rannsóknir sýna að tæp 88% landsmanna telja mikilvægt að sýnt sé innlent sjónvarps- og kvikmyndaefni.  Það er því með öllu ótækt að erlendar efnisveitur borgi hér engan virðisaukaskatt, skattur á tónlist og bókum sé 11% en myndefnisveitur og kvikmyndahús borgi 24%.“

Taka stóran bita af köku íslenskra fyrirtækja

Samkvæmt sömu könnu Gallup kemur fram að innlendir aðilar og rétthafar hafa orðið af tæpum 1,7 milljarða króna viðskiptum árlega vegna samkeppninar við Netflix og sambærilegar þjónustur, að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Þetta eru þeir aðilar sem annars hefðu keypt efnið af íslenskum þjónustum ef erlendu þjónustunnar nyti ekki við.   Af því verður hið opinbera af 530 – 680 milljónum kr. vegna erlendra myndefnisveitna sem selja vörur sínar hér á landi en borga ekki virðisaukaskatt og vegna lægri skatttekna vegna minni veltu innlendra efnisveita en ella væri,“ er einnig tekið fram.