Eftir að ný lög voru samþykkt um útleigu einkabíla hefur skráningum hjá bílaleigumiðluninni VikingCars fjölgað um 50%. Í síðustu viku voru rúmlega 60 bílar á skrá og hafa 30 bílar bæst við síðan þá segir Sölvi Melax framkvæmdastjóri VikingCars í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir jafnframt að markmið fyrirtækisins sé að ná 200 bílum fyrir lok ágúst.

Sölvi segir að núverandi lög sem komu í gildi í fyrra voru léleg og voru hömlurnar frekar litlar, með tilkomu nýrra laga sem taka gildi 1. ágúst næstkomandi verði ferlið einfaldlega hreinna.

Aðspurður segir Sölvi kúnnahópinn mjög fjölbreyttan. „Það er ekki endilega fólk sem hefur minna á milli handanna. Þetta er oft fólk sem er að leita að öðruvísi upplifun og margir sem eru að leigja íbúðir. Einnig umhverfissinnar og þeir sem hafi reynslu af svipaðri þjónustu erlendis," segir Sölvi.

Mikið hefur verið í umræðunni um hvernig leigumiðlanir munu bregðast við tjónum. Sölvi áréttar að VikingCars verði eins og Airbnb með sértryggingu eða tryggingasjóð til að bæta minni tjón. Stærri tjón verða hins vegar greidd út af tryggingarfélögum. „Við erum með tryggingu frá kúnnanum og kreditkortanúmer og ættum því að geta bætt allt og munum leggja okkur fram í því,“ segir Sölvi.

48 milljónir á dag í bílaleigu

Nýju lögin bjóða upp á mikla tekjumöguleika þar sem um 36% ferðamanna leigja bíl á ferð sinni um Ísland. Samkvæmt tölum frá Rannsóknasetri Verslunarinnar eyddu erlendir ferðamenn 1,5 milljarði íslenskra króna í bílaleigu í júlí á síðasta ári. Það jafngilri 48 milljónum á dag. Bílaleigumiðlunin VikingCars áætlar að leigutekjur af nýlegum litlum fólksbíl geti numið allt að 260 þúsund krónum á mánuði.

Rætt er við stjórnendur stærstu bílaleiga á Íslandi um áhrif nýju laganna á starfsemi þeirra í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.