Nú á dögunum var stjórnmálamaður í Lombardy-héraði Ítalíu handtekinn fyrir spillingu og að hafa tekið við mútum. Húsleit var gerð heima hjá þeim grunaða, Fabio Rizzi, og í ísskáp hans fundust 17 þúsund evrur - aðallega í 200 og 500 evru seðlum. Máli Rizzi er ekki lokið, og ekki er ólöglegt að eiga seðlahrúgur heima hjá sér, en niðurstöður húsleitarinnar verða að öllum líkindum til þess að gera skoðanir þeirra, sem telja að 500 evru seðlar séu aðeins notaðir af glæpamönnum, talsvert marktækari.

Umræðan um seðlana hefur staðið yfir nokkuð lengi, og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hana. Er heimurinn verður sífellt rafvæddari fylgja persónuleg fjármál sömu þróun, og sumar þjóðir hafa nánast gert út af við öll viðskipti með reiðufé. Helst má þar nefna Svíþjóð. Mario Draghi, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, hefur meðal annarra látið í ljós þá skoðun sína að skynsamlegt væri að hætta prentun og stöðva umferð 500 evru seðilsins.

Stjórnmálamenn á evrusvæðinu verða sífellt hneignari til þess að telja 500 evru seðla og aðrar hávirðisútgáfur gjaldmiðla lítið annað en eldsneyti á bál svarts markaðar og glæpamanna, sem hafa hagsmuni af því að stunda sín viðskipti með gjaldmiðlum sem ekki er hægt að rekja og engar skrár eru til um - ólíkt því sem tíðkast í rafrænum viðskiptum, þar sem peningaslóðir eru oftar en ekki auðrekjanlegar.

Sumar þjóðir innan ESB, meðal annars Þýskaland, Austurríki og Lúxemborg, eru mótfallin því að möguleikar fólks til notkunar reiðufjár séu minnkaðar með þessum hætti. Fyrst og fremst er það vegna þess að þar í löndum er meiri menning fyrir því, almennt séð, að notast við reiðufé - en einnig er ástæðan sú að seðlabönkum sem hafa neikvæða stýrivexti er vantreyst.

Landsmenn þessara þjóða óttast að ef reiðufé yrði af enn skornari skammti gæfi það seðlabanka Evrópu aukið rými til þess að lækka stýrivexti neðar en þeir eru nú þegar. Ef reiðufé í nægilega stórum virðiseiningum er ekki til staðar gæti það gert almenningi erfitt fyrir að taka fé sitt út úr innlánsreikningum sínum í bönkum til þess að forðast virðisrýrnum fjármagns síns.

Örlög 500 evru seðilsins verða mögulega ákveðin á allra næstu dögum. Evrópski seðlabankinn starfar að því að hanna nýja útgáfu seðla og möguleiki er á því að 500 evru seðillinn fái ósköp einfaldlega ekki að vera með. Með því yrði hann ekki prentaður lengur, og með tíð og tíma myndi seðillinn hverfa úr umferð alfarið.