Allir þeir sem áður heyrðu undir launakjaraákvarðanir kjararáðs munu fá 181 þúsund króna launaupphboð fyrir jólin að því er Fréttablaðið greinir frá. Algengt er að á almennum vinnumarkaði fái fólk 89 þúsund krónur í desemberuppbót.

Um er að ræða um 500 manns, því auk kjörinna fulltrúa, hafa laun ýmissa embættismanna, skrifstofustjóra auk dómara verið ákvörðuð af ráðinu. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagt fram frumvarp um að leggja niður kjararáð.

Fjármálaráðuneytið segir í svari til Fréttablaðsins að á móti þessari upphæð fái hópurinn sem heyrði undir kjararáð ekki orlofsuppbót eins og flestir aðrir hópar. „En desember- og orlofsuppbót flestra stéttarfélaga ríkisins er samtals 137 þúsund krónur,“ segir Elva Björk Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.

Reglur kjararáðs gera ekki ráð fyrir að um sé annað en desemberuppbót að ræða, og ekkert er minnst þar á orlofsuppbót. Þar segir að greiddar séu 19 einingar í desemberuppbót samkvæmt launaflokki 136 í launatöflu kjararáðs nr. 502.

Hver eining er 9572 krónur, svo alls er upphæðin 181.868 krónur, eða 45 þúsund króna en áðurnefnd samtala og 92 þúsund krónum meira en algeng desemberuppbót.