Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú veitt Mongólíu 5,5 milljarða dala hjálparhönd. Markmið aðstoðarinnar er að koma meira jafnvægi á hagkerfið auk þess að þrýsta í gegn breytingum.

Stjórnvöld í Mongólíu hafa þá samþykkt að skera niður í útgjöldum og að hækka skatta. Auk þess verður unnið að því að skapa fjölbreyttari störf í landinu.

Hagkerfi landsins hefur dregist mikið saman að undanförnu, enda er þjóðin afar háð verði á hrávörum. Árið 2011 nam hagvöxtur um 17,5% en stuttu síðar fóru vindar að snúast.

Samkvæmt yfirlýsingum AGS verður sérstaklega skoðað að bæta ferðaþjónustu og landbúnað í landinu.

Kína hefur á síðustu árum keypt um 90% af útflutningi landsins, en eftirspurn Kínverja eftir ákveðnum hrávörum hefur dregist saman, sem hefur þá smitað hagkerfi Mongólíu.

Aðstoðin kemur á áhugaverðum tímum, en aðeins einn mánuður er í forsetakosningar landsins. Núverandi forseti, Tsakhiagiin Elbegdorj, mun ekki gefa kost á sér, enda hefur hann setið í tvö kjörtímabil.