Stjórn Reita fasteignafélags hf. hefur ákveðið að óska eftir því við Nasdaq Iceland að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði. Samhliða verður óskað eftir því að tekinn verði til viðskipta skuldabréfaflokkur sem félagið gaf út í desember síðastliðnum og seldi til fagfjárfesta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Félagið væntir þess að viðskipti geti hafist 9. apríl næstkomandi en áður en að því kemur mun fara fram almennt útboð á hlutabréfum í félaginu dagana 25.-27. mars þar sem Arion banki hf. býður til sölu 13,25% eignarhlut í félaginu. Miðað við lágmarksverð útboðsins nemur heildarstærð þess 5.550 milljónum króna og svarar það til tæplega 42 milljarða króna markaðsvirðis alls hlutafjár í Reitum. Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingabankasviðs Arion banka hefur umsjón með útboðinu og því ferli að fá bréf félagsins tekin til viðskipta.

Tvær tilboðsbækur í boði

Tvær tilboðsbækur verða í boði fyrir fjárfesta og nemur samanlögð stærð þeirra 100.000.000 hlutum.

Í tilboðsbók A verður fjárfestum boðið að skrá sig fyrir kaupum að andvirði á bilinu frá 100 þúsund krónum og upp í 10 milljónir króna. Þar verður tekið við áskriftum á verðbilinu 55,5–63,5 krónur á hlut en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók A verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs.

Í tilboðsbók B verður tekið við áskriftum að andvirði yfir 10 milljónir króna. Þar verður lágmarksverð 55,5 krónur á hlut og ekkert hámarksverð tilgreint af seljanda en eitt endanlegt útboðsgengi í tilboðsbók B verður ákvarðað af seljanda í lok útboðs sem verður jafnt eða hærra útboðsgengi A.

„Skráning Reita mun marka stór tímamót fyrir félagið og hluthafa þess sem í dag eru ríflega 200 talsins. Félagið sómir sér vel meðal fyrirtækja í kauphöll enda fjárhagslega sterkt og með traustan rekstur. Það verður einnig ánægjulegt að sjá nýjan 25 milljarða skuldabréfaflokk félagsins í kauphöll,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.

Útboð Eikar haldið í apríl

Reitir eru ekki eina fasteignafélagið sem hyggur á skráningu á Aðalmarkað Kauphallarinnar, því Eik fasteignafélag hefur einnig óskað eftir slíkri skráningu. Í aðdraganda skráningarinnar mun fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hafa umsjón með almennu útboði á hlutum í félaginu.

Stefnt er að því að útboðið verði haldið dagana 17. - 20. apríl 2015. Í útboðinu hyggst Arion banki bjóða til sölu allt að 14% eignarhlut sinn í félaginu en frekari upplýsingar um stærð og fyrirkomulag útboðsins verða birtar í lýsingu félagsins.