Facebook á afmæli í dag. Samfélagsmiðlarisinn er orðinn 12 árama gamall. Um það bil 1,6 milljarður manna notar miðilinn mánaðarlega, sem er gífurlegur fjöldi fólks. Frá því að miðillinn fór fyrst í loftið hafa notendur hans varið heilum 55 milljón árum af tíma sínum á honum samtals.

Fjármagnið sem fyrirtækið hlýtur af þessum notendum er ekkert til að gantast með. Fyrir hvern notanda hagnast Facebook um 3,73 Bandaríkjadali árlega, ef marka má afkomu félagsins sem tilkynnt var nú á dögunum. Viðskiptablaðið fjallaði um afkomuna.

Ef miðað er við markaðsvirði fyrirtækisins fremur en árlega hagnaðinn, þá er hver og einn notandi 200 Bandaríkjadala virði fyrir auglýsendum og fyrirtækjunum sem kaupa persónuupplýsingar og auglýsingar af Facebook.

Notendur samskiptamiðilsins spandera á hverjum degi um 10,5 milljörðum mínútna í að skruna gegnum fréttaveitur og veggi - samkvæmt tölum frá 2012. Miðað við aukningu virkra notenda hefur þessi tala vafalaust aukist talsvert.

CNBC hefur lagt til áhugaverðan hugarreikning. Ef gefið er að hver og einn notandi verji 20 mínútum á vefsíðunni á dag í stað þess að vinna fyrir lægstu grunnlaun, þá glatast heilir 900 milljarðar dala þessa ímyndaða vinnuafls - ekkert smáræði.