Á bilinu sex til tíu prósent ávöxtun er af útileigu íbúðarhúsnæðis um allt land samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Þjóðskrá . Athygli vekur að ávöxtunin er í flestum eignaflokkum hærri þegar leigusali er einstaklingur en lægst að þegar leigusali er fjármálastofnun.

Til dæmis má taka ávöxtun á útleigu þriggja herbergja íbúðar í Reykjavík, vestan Kringlumýrabrautar og Seltjarnarnes. Þegar leigusali er einstaklingur þá er ávöxtunin 7,4%; 7,8% þegar leigusali er fyrirtæki og 6,4% ef leigusali er fjármálastofnun. Ef sams konar íbúð er skoðuð í Breiðholti er ávöxtunin 8,7% ef leigusali er einstaklingur; 9,6% ef leigusali er fyrirtæki og 8,1% ef leigusali er fjármálastofnun.

Til samanburðar veitir þriggja herbergja íbúð á Akureyri ávöxtun upp á 9% ef leigusali er einstaklingur; 8,2% ef leigusali er fyrirtæki og 7,1% ef leigusali er fjármálastofnun.

Ársávöxtun leiguhúsnæðis er reiknuð sem hlutfall af ársleigu (12*mánaðarlega), fengna úr þinglýstum samningum og fasteignamati íbúðar. Við úrvinnsluna var m.a. sleppt samningum þar sem herbergjafjöldi íbúða er ekki þekktur og samningum um félagslegar íbúðir. Einnig þarf samningurinn að vera um alla fasteignina. Úrvinnslan byggist því á 7.297 samningum sem þinglýst var á tímabilinu 30.júní 2013 til og með 31.júlí 2014 og fasteignamati 2015.