Samkvæmt nýjustu tölum Snapchat, nota um 60 milljónir einstaklinga í Bandaríkjunum og Kanada samskiptaforritið. Fyrirtækið hefur nú verið að leita nýrra leiða til þess að færa sig betur inn á auglýsingamarkaði. Á sama svæði nota um 175 milljónir manns Facebook daglega. Twitter gefur ekki upp daglegar notendatölur en áætlað er að um 66 milljónir manns noti Twitter.

Ef Snapchat nær að staðsetja sig rétt á markaðnum, gæti fyrirtækið séð umtalsverða tekjuaukningu. Facebook þénar til að mynda um 12,43 dali á hvern notenda í Bandaríkjunum og Kanada. Á heimsvísu nema tekjur Facebook um 3,32 dali á haus.

Samkvæmt Statista.com hafa tekjur félagsins aukist umtalsvert milli ára. Árið 2015 námu tekjur þess um 59 milljónir dala en því er spáð að tekjurnar muni verða á bilinu 500 milljónir til 1 milljarður dollara árið 2017.

Framtaksfjárfestar verðmeta fyrirtækið á ríflega 22 milljarða dollara, en fyrsta hlutafjáraukning sem félagið réðst í nam tæplega 500 þúsund Bandaríkjadölum og fór fram fyrir um 5 árum.