Nýtt sam-evrópskt þróunarverkefni stýrt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands um lífmassa-framleiðslu og aðra úrvinnslu lúpínu hefur hlotið fimm milljóna evru styrk, eða sem nemur 600 milljónum íslenskra króna frá Evrópusambandinu.

Að verkefninu, sem hefur fengið nafnið LIBBIO, koma fjórtán aðilar í átta löndum, þar á meðal Landgræðsla ríkisins. Með verkefninu vill ESB auka lífmassaframleiðslu af rýru landi en á Íslandi er mikið af því.

Ekki Alaskalúpína heldur önnur frá Suður-Ameríku

Er stefnt að því að vinna Olíu, prótein og fóður úr lúpínutegundinni Lupinus mutabilis, sem er frá Suður-Ameríku, en öfugt við hina algengu Alaskalúpínu er hún einær sem auk reynslu frá Evrópu virðist ekki benda til þess að hún verði ágeng. Það verði þó kannað sérstaklega.

Verður hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvarinnar vinnsla próteins til annarra nota en matvæla og orkuvinnslu, auk verkefnastjórnarinnar sjálfrar. Verður á Íslandi lögð áhersla á að kanna möguleika lúpínunnar til vaxtar á rýru landi með það fyrir augum að nýta hana til uppgræðslu eða fóðurframleiðslu.

„Verkefnið er styrkt af samstarfsneti evrópska lífmassaiðnaðarins, innan H2020 rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins, samkvæmt verkefnissamningi nr. 720726,“ segir í frétt nýsköpunarmiðstöðvarinnar.