Hagnaður Símans á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam 615 milljónum króna samanborið við 887 milljónir króna á sama tímabili 2018. Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2019 námu 6.962 milljónum króna samanborið við 6.874 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækka því um 88 milljónir króna eða 1,3%. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.369 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 2.404 milljónir króna á sama tímabili 2018 og lækkar því um 35 milljónir króna eða 1,5% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 34,0% fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 en var 35,0% á sama tímabili 2018. Að teknu tilliti til breytinga vegna IFRS 16 þá nam EBITDA á fyrsta ársfjórðungi 2018 2.604 milljónum króna og EBITDA hlutfall 37,9%.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.062 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2019 en var 2.390 milljónir króna á sama tímabili 2018. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.711 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2019 en 2.043 milljónum króna á sama tímabili 2018.

Vaxtaberandi skuldir námu 16,5 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungi 2019 en voru 17,2 milljarðar króna í árslok 2018. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 15,5 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2019 samanborið við 16,0 milljarðar króna í árslok 2018. Hrein fjármagnsgjöld námu 313 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2019 en voru 182 milljónir króna á sama tímabili 2018. Fjármagnsgjöld námu 356 milljónum króna, fjármunatekjur voru 50 milljónir króna og gengistap var 7 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfall Símans var 55,4% í lok fyrsta ársfjórðungs 2019 og eigið fé 35,8 milljarðar króna.

„Rekstur samstæðunnar byggir á traustum grunni á fyrsta ársfjórðungi 2019, eins og undanfarin misseri. Tekjur hafa aukist milli ára og mikilvægir tekjustraumar eins og sjónvarpsþjónusta verða enn sterkari þegar líður á árið.

Nokkrir atburðir setja mark sitt á fyrstu mánuði ársins. EBITDA hækkar bókhaldslega milli ára, en lækkar að þessu sinni milli ára þegar sömu reikningsskilaaðferðir eru notaðar á tölur fyrra árs. Hagnaður dregst einnig saman á fyrsta ársfjórðungi. Við gjaldfærðum varúðarfærslu upp á 100 milljón króna í fjórðungnum, að dráttarvöxtum meðtöldum, vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um mál sem átti sér stað á Snæfellsnesi á síðasta áratug. Við höfum áfrýjað þeirri upphæð, sem við teljum að eigi að vera umtalsvert lægri. Uppsagnarkostnaður eykst á milli ára, en starfsfólki Símans hf. fækkaði um 30 í fjórðungnum. Lokun búðar okkar í Kringlunni um síðustu mánaðarmót var þar stærsta einstaka breytingin, en auk þess heldur sjálfvirknivæðing og aukinn stöðugleiki kerfa okkar áfram að draga úr þörf fyrir mannfrekar vaktir í þjónustu og eftirliti. Tekjur af heildsölu og reiki eru rúmlega 200 milljónum króna lægri en á sama tímabili í fyrra, en sá munur verður hverfandi þegar líður á árið.

Stórum kjarasamningum á vinnumarkaði lauk með fremur raunsærri niðurstöðu, sem skiptir miklu fyrir samstæðuna, en launakostnaður er langstærsti einstaki kostnaðarliður okkar. Enn er ósamið við stóra hópa sem starfa innan okkar raða, en við búumst ekki við fráviki frá þegar frágengnum samningum. Eins og þekkt er hefur rekstrarstöðvun WOW Air neikvæð áhrif á hagkerfið og þar með rekstur samstæðunnar, en flugfélagið var í viðskiptum við Símann. Í samhengi við aðrar breytingar í rekstri eru áhrifin þó afmörkuð og hafa ekki áhrif á spá ársins.

Sensa átti sterkan fjórðung og jók tekjur sínar milli ára, en tekjur Sensa sveiflast meira milli fjórðunga en annarra eininga samstæðunnar. Míla átti stöðugan og góðan fjórðung sem endranær. Við fjárfestum áfram í ljósleiðaravæðingu Mílu en ljósheimtaugar fyrirtækisins ná nú til meira en helmings heimila landsins. Starfsemi okkar almennt krefst auk þess stöðugra uppfærslna kerfa okkar, svo sem í farsíma og upplýsingatækni. Þá reikningsfærist stór hluti aðkeypts sjónvarpsefnis nú í fyrsta sinn sem fjárfestingar, sem afskrifast með notkun yfir tíma. Áður kostnaðarfærðist þessi liður úr birgðum og sýnir þessi nýja bókhaldsaðferð því hærri fjárfestingar milli ár.

Barist er af mikilli hörku á þeim mörkuðum sem Síminn keppir. Fyrirtækjamarkaður hefur verið líflegur, sérstaklega hafa verð í farsíma lækkað undanfarin ár. Slíkar lækkanir héldu áfram í fyrra og þess sér stað í tölum fyrsta ársfjórðungs í ár. Á einstaklingsmarkaði hafa vissar vörur lækkað í verði, svo sem internet síðastliðið haust. Hins vegar hefur markvisst verið unnið að því að bæta innihald þjónustu, svo sem í sjónvarpi, og hafa verið verðhækkanir samhliða þeim breytingum. Viðskiptavinum okkar í farsíma fjölgar um 10.500 milli ára, að stærstum hluta vegna vinsælda Þrennunnar. Heimilispökkum fjölgar um 5.400 milli ára og prýðisgangur er í sjónvarpi. Við munum styrkja þann tekjustraum enn frekar frá og með þriðja ársfjórðungi, þegar enski boltinn verður tekinn til sýninga hjá Símanum, en sú vara mun styrkja vöruframboð okkar með markverðum hætti. Sígandi lukka lýsir árinu best," er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans í tilkynningunni.