Í nóvembermánuði voru 100 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta en á sama tímabili fyrir ári voru þau 35. Ef horft er til síðustu 12 mánaða þá hefur gjaldþrotum fjölgað um 63% miðað við árið á undan.

Voru alls 1.010 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á síðustu 12 mánuðum, en á sama tímabili árið á undan voru þau ekki nema 618 að því er Hagstofan greinir frá .

Mest fjölgun í fjármála- og vátryggingastarfsemi

Fjölgaði þeim mest í flokki fyrirtækja sem starfa í fjármála- og vátryggingastarfsemi, eða úr 33 í 91 frá fyrra 12 mánaða tímabili.

Fjölgaði gjaldþrotum í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi um 111% eða úr 46 í 97, í upplýsingum og fjarskiptum var fjölgunin 97% þar sem þau fóru úr 32 í 63 og í heild og smásöluverslun fór fjölgunin úr 103 í 202 sem nemur 96% fjölgun.

Minnst fjölgun var hins vegar meðal fyrirtækja í flutningum og geymslu þar sem þau fóru úr 20 í 22. Einnig var smávegis fjölgun í flokknum Rekstur gististaða og veitingarekstur eða úr 47 í 59.