*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Innlent 23. október 2018 13:11

63 milljarða aukning gjaldeyris á árinu

Íslandsbanki segir aukna gjaldeyrissöfnun innanlands ekki ástæðu veikingar krónunnar. Heildareignin 234 milljarðar króna.

Ritstjórn
Getty Images

Ástæða þess að íslensk króna hefur veikst undanfarið virðist ekki vera vegna gjaldeyrissöfnunar innlendra aðila að mati Greiningar Íslandsbanka. Þó bendir bankinn á að gjaldeyriseign heimila, fyrirtækja og annarra innlendra aðila í bönkum landsins hafi aukist umtalsvert á árinu.

Lætur nærri að sú aukning sé álíka mikil og áætlaður viðskiptaafgangur ársins, eða sem nemur 63 milljörðum íslenskra króna. Þó varar bankinn við að draga of víðtækar ályktanir af því.

Innistæður á gjaldeyrisreikningum innlendra aðila námu ríflega 234 milljörðum króna í lok síðastliðins septembermánaðar samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans. Þá höfðu innistæðurnar vaxið um ríflega 9 milljarða frá mánuðinum á undan.

Ef leiðrétt er fyrir gengisbreytingum frá lokum september má þó áætla að innistæðurnar hafi aukist um tæplega 2 milljarða króna. Það er því mun minni aukning en í ágústmánuði, en m.v. sama mælikvarða var aukningin þá tæplega 17 milljarðar króna.

Af því 234 milljarða króna andvirði sem eru inn á gjaldeyrisreikningum landsmanna eru um 103 milljarðar króna í Bandaríkjadölum og 97 milljarðar í evrum. Eiga heimilin í landinu um 38 milljarða króna af þessu fé en þau hafa aukið við eign sína um 2 milljarða í september en 8,1 milljarð frá áramótum.

Fyrirtæki eiga svo um 96 milljarða, og þar af eru 6 milljarðar aukning í september. Aukningin frá áramótum er 17,6 milljarðar. Telur bankinn að stofnanir og lífeyrissjóðir hafi dregið úr innstæðum sínum á móti þessari aukningu.