*

sunnudagur, 22. júlí 2018
Innlent 10. ágúst 2017 12:01

63 milljarðar hafa þurrkast út

Samanlagt markaðsverðmæti Haga og Icelandair Group hefur lækkað um rúmlega 63 milljarða það sem af er þessu ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Við lokun markaða þann 30. desember síðastliðinn nam samanlagt markaðsverðmæti Haga og Icelandair rúmlega 174,5 milljörðum króna. Við lokun markaða í gær nam samanlagt markaðsverðmæti þessara félaga 111,3 milljörðum króna. Frá áramótum hefur því 63,2 milljarður króna af markaðsverðmæti þessara tveggja félaga þurrkast út. 

Bæði fyrirtæki hafa lent í þónokkrum skakkaföllum á árinu. Þann 30. janúar tilkynnti Icelandair hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði afskriftir og skatta myndi dragast verulega saman á árinu 2017. Varð það til þess að daginn eftir lækkaði hlutabréfaverð félagsins um 24% úr 22,1 krónu á hlut í 16,8 krónur á hlut. Í dag stendur gengi hlutabréfa félagsins í 14,2 krónum á hlut og hefur markaðsvirði félagsins lækkað um 43,2 milljarða það sem af er ári eða um 38%.

Hlutabréfaverð Haga hefur svo lækkað um 33,4% frá því að Costco opnaði verslun sína í Kauptúni þann 23. maí síðastliðinn. Síðan þá hefur fyrirtækið sent frá sér tvær afkomuviðvaranir þar sem greint var frá því að sölusamdráttur væri að eiga sér stað miðað við sama tíma í fyrra. Frá ársbyrjun hefur markaðsverðmæti Haga því lækkað um 19,9 milljarða króna eða um 31,9%.