66°Norður er áberandi í Kaupmannahöfn um þessar mundir en fyrirtækið auglýsir nýja verslun sína á tíu auglýsingaskiltum sem prýða strætisvagnaskýli víðs vegar um dönsku höfuðborgina.

Verslunin er staðsett á Sværtegade 12, skammt frá Strikinu. Hún er um 130 fermetrar að stærð, hönnuð af Gonzalez-Haase arkítektum frá Berlín. Um er að ræða fyrstu verslun 66°NORÐUR erlendis sem rekin er alfarið af fyrirtækinu.

„Við erum smátt og smátt að minna frekar á okkur í Danmörku og fylgja á eftir opnun verslunar okkar með birtingum í dönskum tímaritum og með umhverfisauglýsingum t.d. á Kongens Nytorv í miðborg Kaupmannahafnar svo eitthvað sé nefnt," segir Fannar Páll Aðalsteinsson verkefnastjóri í markaðsdeild 66°Norður.

Þá mun Baltasar Kormákur leikstjóri sitja fyrir í herferð fyrirtækisins í Danmörku. Myndir af leikstjóranum í 66°Norður fatnaði munu prýða auglýsingar í dönskum fjölmiðlum en fyrirtækið opnaði verslun í miðborg Kaupmannahafnar á dögunum.