Sjóklæðagerðin 66°Norður hefur haslað sér völl erlendis bæði með rekstri verslanna og verksmiðja. Nú hafa umsvifin aukist enn frekar með opnun tveggja nýrra verslana undir merkjum 66°North, í Kaupmannahöfn og Vilnius í Litháen að því er kemur fram í tilkynningu. Fyrirtækið er stærsti framleiðandi útivistarfatnaðar á Íslandi.


Vörur frá 66°Norður eru seldar í verslunum í 15 löndum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Nú hefur vörumerkið styrkt stöðu sína enn frekar með opnun tveggja nýrra verslanna undir vörumerkinu 66°North annars vegar í Litháen og hins vegar í Danmörku.

Verslunin sem nú hefur verið opnuð í Kaupmannahöfn er sú fyrsta sem opnuð er undir merkinu 66°North í Danmörku og með opnuninni er farið að óskum viðskiptavina 66°Norður sem lengi hafa beðið eftir verslun í Danmörku. Verslunin er staðsett í gömlu sláturhúsi í miðbæ Kaupmannahafnar og er stíllinn á henni hrár með tilvísun í gamla tímann með innréttingum. Milkil eftirvænting er fyrir opnuninni í Kaupmannahöfn og hafa til dæmis verið framleiddir sérstakir númeraðir 66°North bolir sem einungis verða seldir í þessari einu verslun í skammann tíma segir ´´i fréttatilkynningunni.


Í byrjun september opnar einnig verslun í Vilnius höfuðborg Litháen. Þetta er önnur verslunin sem opnuð er undir vörumerkinu 66°Norður í Litháen og hefur vörum fyrirtækisins verið tekið vel þar í landi. Stöðug söluaukning hefur verið síðan vörumerkið var fyrst kynnt þar í landi og er búist við að nýja búðin auki enn á hróður vörumerkisins í Eystrasaltslöndunum. Þá rekur 66°Norður eina verslun í Lettlandi auk þess að reka tvær verksmiðjur þar í landi.