Samskip eru stærri en Eimskip þegar litið er til heildartekna á síðasta ári. Samskip Holding B.V., sem skráð er í Hollandi, höfðu um 90 milljarða króna í tekjur en Eimskip hafði um 70 milljarða í tekjur. Hins vegar hefur Eimskip stærri markaðshlutdeild hér á landi. Tekjur Eimskips af innlendum rekstri voru um 33 milljarðar, en tekjur Samskipa um 19 milljarðar.

Hagnaður Eimskips jókst um 26% í fyrra og nam 2,1 milljarði króna. Í fjárfestakynningu var hagnaðaraukningin rakin til aukinna umsvifa og mikillar aukningar í flutningum á kælivöru. Þá voru breytingar á leiðakerfinu sagðar hafa leitt til aukinnar hagkvæmni.

Lítill hagnaður hjá Samskipum á Íslandi

Hagnaður Samskipa dróst hins vegar saman um 22% í fyrra. Pálmar Óli Magnússon, sem tók við sem forstjóri Samskipa í fyrra, segir að afkoman af starfsemi félagsins hafi batnað á milli 2013 og 2014. Skýringin á minni hagnaði á milli ára liggi hins vegar í eign- og tekjufærslu á skattalegu tapi erlendis árið 2013 sem var ekki árið 2014.

Hagnaður Samskipa á Íslandi dróst meira saman en hagnaður móðurfélagsins, eða um yfir 90%. Nam hagnaðurinn aðeins 13 milljónum króna í fyrra, eða sem samsvarar innan við 0,1% af tekjum. Pálmar segir helstu skýringuna á hagnaðarsamdrættinum vera að tekjur hafa ekki haldið í við kostnaðarhækkanir á milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .