Tekjur ríkissjóðs á árinu 2016 aukast í heild um tæpa 72 milljarða króna frá fjárlögum ársins. Um helmingur aukningarinnar er vegna stöðugleikaframlaga. Hinn helmingurinn eða 36 milljarðar króna er að mestu til kominn vegna tekna af arði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fjármálaráðuneytisins.

Stöðugleikaframlagið sem um ræðir kemur frá slitabúum en það nemur 35,9 milljörðum króna í ár. Alls munu föllnu bankarnir greiða tæplega 350 milljarða króna gegnum stöðugleikaframlögin. Nýtilkomin bókhaldsaðgerð hliðrar þá framlaginu sem hefði færst inn á næstu ár til þessa árs.

Arðgreiðslur frá bönkunum aukast þá um 25,2 milljarða króna frá þeim forsendum sem gengið var út frá í fjárlögum 2016. Áætlaðar skatttekjur eru hækkaðar um 11,3 milljarða króna. Þar af eru um 5 milljarða fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs sem hefur ekki áhrif á afkomuna.