Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 hefur verið lagt fram á nýsettu þingi. „Í frumvarpinu fyrir árið 2017 er áfram byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með hallalausum fjárlögum undanfarin þrjú ár. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað ár frá ári eftir að sjálfvirk skuldasöfnun var stöðvuð með fjárlögum ársins 2014 og er fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 það fjórða í röð þar sem gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs,“ segir í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu .

Mest áhersla verður lögð á heilbrigðis-, mennta og löggæslumál í fjárlagafrumvarpinu, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aukin rekstrarframlög til heilbrigðismála verða samtals 7,3 milljarðar króna.

Gert er ráð fyrir því að heildarafkoma skili afgangi sem nemi 28,4 milljörðum króna árið 2017, sem er nær óbreytt útkoma fyrir ríkisreksturinn og frá fjármálaáætlun. Afgangur af frumjöfnuði er verulegur eða 90,9 milljarðar króna.

Megináhersla á heilbrigðis-, mennta og löggæslumál

Í fjárlögum yfirstandandi árs hefur auknum framlögum úr ríkissjóði verið varið til að efla og bæta þjónustu velferðarkerfisins og er vöxtur þeirra útgjalda á árinu 5%. Í fjárlögum næsta árs er lögð megináhersla á heilbrigðis- menntamál og löggæsla.

  • Heildarframlög á nafnvirði til löggæslumála samkvæmt fjárlagafrumvarpi fara úr 11,8 milljörðum króna árið 2015 og upp í 13,7 milljarða króna á næsta ári.
  • Breytingar á lögum um almannatryggingar, sameining bótaflokka ellilífeyrisþega í einn grunnlífeyri og fleira nema samtals 11,1 milljörðum króna.
  • Aukin rekstrarframlög til heilbrigðismála verða samtals 7,3 milljarðar króna.
  • Hækkun iðgjalda launagreiðenda til A-deildar LSR úr 11,5% í 15,1% frá og með næstu áramótum nema 4,5 milljörðum.
  • Nýr rammasamningur um almenn starfsskilyrði koma til með að kosta 1,1 milljarð króna.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 er lagt fram við óvenjulegar aðstæður. Í frétt Fjármálaráðuneytisins er eftirfarandi tekið fram: „Í vor var ákveðið  að flýta kosningum til Alþingis til haustsins og voru kosningar haldnar 29. október. Frá þeim tíma hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn. Fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram fjárlagafrumvarp fyrir hönd starfsstjórnar en ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum, að því er stjórnarskráin kveður á um.  Því er nauðsynlegt að fjárheimildir fyrir komandi ár verði afgreiddar fyrir áramót.“