Sunnudagur, 29. mars 2015
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norski olíusjóðurinn tapar 1.500 milljörðum króna

10. ágúst 2012 kl. 13:37

Stjórnendur lífeyrissjóðs Norðmanna riðu ekki feitum hesti frá fjárfestingum sínum á öðrum ársfjórðungi.

Norski olíusjóðurinn, sem gjarnan er nefndur lífeyrissjóður Norðmanna, tapaði 77 milljörðum norskra króna, jafnvirði 1.560 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Í umfjöllun norska dagblaðsins Aftenposten af málinu kemur fram að þetta samsvari því að olíusjóðurinn hafi tapað 1,2 milljörðum norskra króna á hverjum einasta virka degi á þessu þriggja mánaða tímabili. 

Það sem helst skýrir tapið eru kaup sjóðsins gengisfall á hlutabréfum í Facebook og Barclays-banka í Bretlandi. Á sama tíma og hlutabréfaeign olíusjóðsins hefur ekki skilað miklu hafa stjórnendur hans unnið að því að losa sig við skuldabréf evruríkja í skuldavanda. Þegar afkoma sjóðsins var kynnt í morgun kom fram að olíusjóðurinn hefur losað sig við nær öll ríkisskuldabréf frá Írlandi og Portúgal en lumar enn í fórum sínum á spænskum og ítölskum ríkisskuldabréfum. Þá hefur sjóðurinn sömuleiðis þurft að sitja á grískum ríkisskuldabréfum sínum síðan kröfuhafar sömdu um björgun gríska ríkisins.

Þrátt fyrir milljarðatap á fjórðungnum er staða olíusjóðsins norska sterk. Fram á afkomufundi hans að á móti 77 milljarða króna tapi á fjórðungnum runnu í hann 72 milljarða skatttekjur af olíu og jarðgasi sem unnið er við Noregsstrendur. Heildareignir í lok júní námu 3.561 milljarði norskra króna, jafnvirði rúmra 72 þúsund milljarða íslenskra króna.Allt
Innlent
Erlent
Fólk