Laugardagur, 28. mars 2015
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hálfs milljarðs tap hjá Advania

17. ágúst 2012 kl. 17:05

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Einskiptiskostnaður í Noregi upp á um fjögur hundruð og fimmtíu milljónir króna vegur þungt.

Advania skilaði 506 milljóna króna tapi á fyrri helmingi ársins, en í tilkynningu segir að stór hluti þessa taps komi til vegna einskiptiskostnaðar í Noregi. Velta samstæðu fyrirtækisins nam 12,9 milljörðum króna, sem jafngildir 5,3% vexti frá sama tímabili í fyrra. Hlutfall erlendra tekna var um 62% á tímabilinu, en í dag starfa um 1.100 manns hjá Advania samstæðunni á Íslandi, Noregi, Lettlandi og Svíþjóð.

Velta í Noregi dróst saman um 7,9% á fyrri helmingi ársins og nam 2,2 milljörðum króna. Einskiptiskostnaður, sem nam 453 milljónum króna, kom annars vegar til vegna þess að verklok á umfangsmikilli innleiðingu viðskiptakerfis fyrir stóran viðskiptavin drógust. Kostnaður vegna þessa nam 216 milljónum. Þá var ráðist í miklar aðhaldsaðgerðir og skipulagsbreytingar, sem m.a. fólu í sér breytingu á lífeyriskerfi starfsmanna úr réttindatengdu kerfi í iðgjaldatengt.

Velta Advania á Íslandi nam 5,5 milljörðum króna og í Svíþjóð var hún um 5,3 milljarðar.