Skiptum er lokið í Samson eignarhaldsfélagi ehf., fjárfestingafélagi Björgólfsfeðga, Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem stofnað var utan um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum árið 2002.

Lýstar kröfur námu 77,4 milljörðum króna, en 6,5 milljarðar króna fengust upp í kröfurnar eða 8,6% að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag. Almennar kröfur námu 48,6 milljörðum króna, veðkröfur, 28,9 milljörðum króna, forgangskröfur á 1,7 milljónum króna og búskröfur námu 1,6 milljón króna.

Á árunum 2005 og 2006 hóf Samson aðrar fjárfestingar, til dæmis í fasteignafélaginu Samson Properties. Í kjölfar yfirtöku ríkisins á Landsbankanum í október 2008 var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var félagið lýst gjaldþrota 12. nóvember 2008 og tóku gjaldþrotaskipti félagsins því tæpan áratug.