Sérstakur saksóknari hafði ýmis efnahagsbrot til rannsóknar, en ekki aðeins brot sem tengdust bankahruninu. Sé athyglin einskorðuð við þau mál sem tengjast beint fjármálakerfinu fyrir hrun hafa fallið dómar í tuttugu málum sem embættið hafði til meðferðar samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins.

Af þeim hefur Hæstiréttur fellt dóm í níu málum, auk þess sem eitt mál – kennt við Aurum – er aftur komið til meðferðar í héraðsdómi eftir ómerkingu í Hæstarétti. Einungis einn sýknudómur hefur fallið í Hæstarétti, en í febrúar 2014 voru þeir Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason sýknaðir í Vafningsmálinu svokallaða. Hæstiréttur hefur því sakfellt í átta hrunmálum og kveða þeir dómar á um samtals 51 árs og 11 mánaða fangelsisvist.

Hæstiréttur hefur ekki dæmt í ellefu hrunmálum af þeim tuttugu sem um ræðir, ýmist vegna þess að þau eru til meðferðar þar, bíða meðferðar, vegna þess að dómi héraðsdóms var ekki áfrýjað eða – í tilfelli Aurum-málsins – vegna þess að dómur héraðsdóms var ómerktur. Sé litið framhjá Aurum-dóminum sýknuðu héraðsdómstólar alla sakborninga í fimm þessara mála. Þeir dómar þar sem var sakfellt kveða á um samtals 28 ára og 6 mánaða fangelsisvist.

Samtals hafa 27 karlar og tvær konur því verið dæmd í 80 ára og 5 mánaða fangelsi í þeim hrunmálum sem samantekt Viðskiptablaðsins nær til. Þar af eru 9 ár og 5 mánuðir skilorðsbundnir en 71 ár óskilorðsbundið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

© vb.is (vb.is)