Gengi íslensku krónunnar hefur veikst nokkuð á síðustu dögum. Frá mánudegi til miðvikudags veiktist krónan um 2,3% gagnvart evru, 2,1% gagnvart dollar og um 2,8% gagnvart sterlingspundi. Þá veiktist krónan í gær um 1,36% gagnvart evru. 0,83% gagnvart dollar og um 1,38% gagnvart sterlingspundi.

Samkvæmt samtali Viðskiptablaðsins við gjaldeyrismiðlara skýrist veiking krónunnar í gær að miklu leyti af frétt Fréttablaðsins um að gengi íslensku krónunnar gæti veikst um 13% ef WOW air yrði gjaldþrota samkvæmt sviðsmyndagreiningu stjórnvalda. Þá hafi minnkandi viðskiptajöfnuður og væntingar um lægri makrílkvóta einnig haft áhrif á veikingu síðustu daga. Það sem af er þessu ári hefur gengi íslensku krónunnar veikst um 8,2% gagnvart evru, 13,2% gagnvart dollar og 10,4% gagnvart sterlingspundi.