Gerður var samningur á milli Baugs og Fjárfestingafélagsins Smára um kaup Smára á öllu hlutafé í Fjárfestingarfélaginu Kletti 31.  desember 2007, að því er fram kemur í kaupsamningnum. Kennitala Smára kemur þar fram en félagið var ekki stofnað fyrr en í febrúar árið 2008.

Samkvæmt Skúla Eggerti Þórðarsyni ríkisskattsstjóra er ekki mögulegt fyrir félög að fá afhenta kennitölu frá fyrirtækjaskrá fyrr en stofngögn hafa verið afhent fyrirtækjaskrá og stofnun félagsins samþykkt. Jafnframt staðfesti Fyrirtækjaskrá við Viðskiptablaðið að Fjárfestingafélagið Smári hafi ekki verið skráð fyrr en 12. febrúar 2008.

Eflaust skýringar
Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs Group hf, skrifaði undir kaupsamninginn fyrir hönd bæði Baugs sem seljanda og Smára sem kaupanda. Í samningnum kemur fram að kaupverðið sé rúmlega 827 milljónir króna og að það eigi að greiða með reiðufé við undirritun samningsins. „Ég bara man það ekki, það eru eflaust skýringar á því,“ segir Stefán aðspurður um hvernig standi á því að kennitala Smára komi fram á samningnum þegar félagið var enn óskráð hjá Fyrirtækjaskrá.

Hann segir að samningurinn hafi vissulega verið undirritaður 31. desember 2007 og að Smári hafi verið stofnaður á þeim tíma. Hann kunni hins vegar ekki skýringar á því hvers vegna kennitala Smára, óskráðs félags á þeim tíma, komi fram á samningnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.