Ný könnun Gallup sýnir að nærri níu af hverjum tíu Íslendinga eru sammála því að atvinnurekstur sé undirstaða velferðar í samfélaginu. Könnunin var gerð fyrir Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands, en niðurstöðurnar verða kynntar á fundi sem samtökin standa fyrir með forsvarsmönnum stjórnmálaflokkanna í Hörpu í dag.

Eins telja níu af hverjum tíu að stjórnvöld eigi að stuðla að hagstæðu rekstrarumhverfi fyrirtækja og tveir af hverjum þremur eru ósammála því að stjórnmálamenn eigi að beita sér í málefnum einstakra fyrirtækja.

Um 84% Íslendinga telja að það sé ábatasamt fyrir samfélagið að fyrirtæki skili hagnaði og þrír af hverjum fjórum telja að aukinn hagnaður fyrirtækja sé jákvæður fyrir samfélagið.

Landsmenn treysta íslenskum fyrirtækjum í auknum mæli en traust til þeirra hefur farið vaxandi á undanförnum árum og hefur ekki mælst hærra frá 2010. Þá bera fjórir af hverjum fimm traust til eigin vinnuveitanda – aðeins Landhelgisgæslan nýtur meira trausts á Íslandi í dag.