Samanlögð fjárfesting nokkurra stórra verklegra framkvæmda á næstu þremur árum nemur 839,2 milljörðum króna. Miðað við áætlanir hins opinbera og einkaaðila mun þurfa að flytja inn mikið vinnuafl. Framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Þingvangs, segist ekki sjá hvaða verktakar eigi að sinna öllum þeim verkefnum sem framundan eru.

Viðskiptablaðið hefur tekið saman nokkrar stórar fjárfestingar sem eru í farvatninu hér á landi. Miðað við þá samantekt er enginn slaki framundan heldur er útlit fyrir að hér muni skorta vinnuafl á næstu árum og hugsanlega mun reynast erfitt að finna verktaka til að sinna öllum þessum verkefnum. Samantektin miðar við áætlanir hins opinbera sem og byggingarframkvæmdir einkaaðila á íbúðarhúsnæði og hótelum. Líklega er mesta óvissan tengd kostnaðinum við byggingu 10 þúsund íbúða á næstu þremur árum og ríflega 2.100 hótelherbergja.

Samkvæmt upplýsingum í nýlegri skýrslu átakshóps um aðgerðir á húsnæðismarkaði er áætlað að 10 þúsund íbúðir verði byggðar á árum 2019- 2021. Gangi þær áætlanir eftir mun óuppfyllt íbúðaþörf minnka til muna en hún verður engu að síður um tvö þúsund íbúðir í upphafi árs 2022. Kostnaður við byggingu 10 þúsund íbúða er um 450 milljarðar króna og er þá miðað við að meðalstærð íbúða verði 100 fermetrar og að fermetraverðið verði 450 þúsund.

Bygging hótela

Mikið hefur verið fjárfest í nýjum hótelum á síðustu árum. Miðað við upplýsingar úr skýrslu greiningardeildar Arion banka frá því í haust þá er í dag verið að byggja um 1.100 hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim verkefnum sem eru í gangi er Marriott Edition Reykjavík, sem staðsett er við hliðina á Hörpunni, það stærsta en þar er gert ráð fyrir 250 herbergjum. Á teikniborðinu eru síðan ríflega 1.000 herbergi til viðbótar. Má þar nefna 446 herbergja hótel á Hlíðarenda en ef ráðist verður í þær framkvæmdir þá verður hótelið það stærsta á Íslandi. Ef þessi áform ganga öll eftir þá munu á næstu þremur árum bætast við 2.135 hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu. Erfitt er að meta nákvæmlega kostnaðinn við þessa uppbyggingu en sé miðað við að hvert hótelherbergi kosti að meðaltali 35 milljónir króna þá eru þetta samtals 75 milljarðar króna á þremur til fjórum árum. Að þessu sögðu eru blikur á lofti í íslenskri ferðaþjónustu og því stór spurning hvort allar hótelteikningar verða að veruleika.

Mikil uppbygging hjá OR

Töluverðar framkvæmdir eru framundan hjá Vegagerðinni. Samkvæmt samgönguáætlun verður um 74 milljörðum króna varið í vegakerfið og hafnir á næstu þremur árum. Sem dæmi fara ríflega sjö milljarðar í Dýrafjarðargöng á þessu ári og því næsta.

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög ráðgera að fara í 55 milljarða króna fjárfestingar á næstu þremur árum. Helstu verkefnin eru stækkun varmastöðvar á Hellisheiði, borun vinnsluhola fyrir virkjanir Orku náttúrunnar og endurnýjun hitaveitulagna á milli Deildartungu og Akraness.

Bygging nýs Landspítala er í fullum gangi og samkvæmt upplýsingum frá NLSH ohf . er gert ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir 36,1 milljarðs króna við Hringbraut á næstu þremur árum. Nýr meðferðarkjarni vegur þar þyngst en sú fjárfesting er metin á 20 milljarða. Svipaða sögu er að segja af framkvæmdum ISAVIA við Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er gert ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir 30 milljarða á vellinum á næstu þremur árum.

Töluverðar framkvæmdir eru áætlaðar á raforkuflutningskerfinu á næstu þremur árum. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er gert ráð fyrir 9 til 10 milljarða króna uppbyggingu á ári næstu þrjú ár. Á meðal helstu framkvæmda eru Kröflulína, Vogasandslína, Hólasandslína og Suðurnesjalína.

HS Orka vinnur að nokkrum stórum fjárfestingaverkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu mun fjárfesting næstu þriggja ára nema 25,5 milljörðum króna og eru stærstu verkefnin bygging Brúarvirkjunar, stækkun Reykjanesvirkjunar og þá er áfram unnið í verkefnum VesturVerks, s.s. virkjun Hvalár.

Hús íslenskra fræða

Á þessu ári mun Framkvæmdasýsla ríkisins fjárfesta fyrir 19,8 milljarða en af þeim eru 7,9 milljarðar eyrnamerktir nýjum Landspítala. Eftir standa 11,9 milljarðar og er stærsta verkefni bygging Húss íslenskra fræða en kostnaður við hana er metinn á 3,4 milljarða króna.

Reykjavíkurborg mun fara í miklar fjárfestingar á næstu þremur árum og margar af þeim tengjast aukinni íbúðauppbyggingu. Á meðal annarra stórra verkefna má nefna byggingu íþróttamiðstöðvar í Úlfarsárdal fyrir 1,3 milljarða og þá fer milljarður í uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá ÍR í Mjóddinni.

Stórframkvæmdir
Stórframkvæmdir
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .