Frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki verður ekki tekið til fyrstu umræðu á því löggjafarþingi sem lýkur í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu ekki heldur að frumvarpið yrði á dagskrá þingfundarins í gær. Verði frumvarpið að lögum óbreytt munu nemendur eiga rétt á beinum styrk auk þess sem hámarkslán yrðu 15 milljónir. Þá myndu vextir hækka í um 3% og tekjutenging afborgana yrði afnumin.

Í samtali við Viðskiptablaðið í gær sagði Illugi að ekki væri útlit fyrir að málið yrði tekið til umræðu í dag, en að hann vonaði að stjórnarandstaðan sæi að sér. Hann segir að breytingarnar myndu gagnast stórum hópi námsmanna og að nýja fyrirkomulagið myndi leiða til þess að 85% námsmanna verði betur staddir að námi loknu.

„Þess vegna finnst mér það allt að því óskiljanleg ákvörðun og skammsýni að leyfa málinu ekki í það minnsta að fara til umræðu. Það hefði enginn skaði getað orðið af því fyrir stjórnarandstöðuna, en það hefði gefið öllum tíma til að fara vel yfir málið í sumar og eiga þetta samtal,“ segir Illugi. Hann kveðst vera tilbúinn til viðræðna um breytingar á frumvarpinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .