Rekstrarhagnaður (NOI) Reita á fyrri árshelmingi var rúmir 3,7 milljarðar króna og jókst um 3,5% frá fyrri helmingi síðasta árs. Leigutekjur voru tæpir 5,6 milljarðar sem er 5,6% aukning. Matsbreyting fjárfestingareigna var neikvæð um 461 milljón, en á sama tímabili í fyrra var hún jákvæð um tæpa 1,9 milljarða, og hagnaður árshlutans var 322 milljónir, en hann var tæpir 2,7 milljarðar á fyrri hluta síðasta árs.

Eigið fé í lok fyrri árshelmings var 47,4 milljarðar, tæpur 4% samdráttur frá áramótum, og eiginfjárhlutfall 33,8%, samanborið við 35,1% um áramótin.

„Undanfarin misseri hafa einkennst af stöðugleika, háu útleiguhlutfalli og ágætum vexti tekna. Þann 1. september n.k. er gert ráð fyrir að kaup á Vínlandsleið ehf. gangi í gegn. Umfang kaupanna er 5.900 millj. kr. en um er að ræða rúmlega 18.000 fermetra af vönduðu húsnæði í fullri útleigu, að mestu leyti til opinberra aðila.“ sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri.

„Áhrif stórfelldra hækkana fasteignagjalda endurspeglast í neikvæðri matsbreytingu eigna á öðrum ársfjórðungi. Óvarlegt er að reikna með því að leigumarkaðurinn taki að fullu við þessum stórfelldu hækkunum á opinberum gjöldum til allrar framtíðar. Sú forsenda markar niðurstöðu rekstrar­reiknings á öðrum ársfjórðungi. Fyrir gerð ársuppgjörs verða áhrifin á líklega þróun markaðsverða til framtíðar metin nánar.“