Árið 2014 voru mánaðarlegir notendur spjallforritlingsins Messenger um 200 milljón manns. Núna, árið 2016, hefur þeim fjölgað upp í 900 milljónir. Messenger er samskiptaforrit samfélagsmiðilsins Facebook, sem telur virka meðlimi sína vera í kringum 1,65 milljarð manns.

Facebook á þá einnig annað spjallforrit, WhatsApp, sem það keypti fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala eða 2.280 milljarða íslenskra króna árið 2014.

Nú hyggst Facebook bæta við sérstakri dulkóðun í Messenger-forritlinginn. WhatsApp hefur nú þegar komið á fót strangri dulkóðun utan um öll sín skilaboð en Messenger á enn eftir að innleiða slíka tækni hjá sér.

Vonast er til þess að dulkóðunin muni gefa Messenger tækifæri til þess að hasla sér völl í löndum þar sem notendur reiða sig helst á önnur samskiptaforrit á borð við WeChat í Kína og Line í Japan og suð-austur Asíu.