Yfirvöld í Síle hafa lýst yfir neyðarástandi í höfuðborginni Santiago vegna gríðarlegrar mengunar og hafa 900 verksmiðjur verið þvingaðar til að loka. Þá er búið að reka 40 prósent af bílaflota borgarinnar af vegunum, eða um 700 þúsund bifreiðir.

„Við erum að takast á við óvenjulegar aðstæður, þetta er einn þurrasti júnímánuðurinn í yfir 40 ár og loftflæði í Santiago dalnum hefur verið afar slæmt undanfarna daga. Það eykur mengun til muna,“ sagði í yfirlýsingu frá umhverfisráðuneyti Síle.

Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1999 sem neyðarástandi sem þessu er lýst yfir í Síle, en til að byrja með mun það standa yfir í 24 klukkustundir. Þó er hægt að framlengja það ef yfirvöld telja að aðstæður hafi ekki batnað.

Að auki er fólki á Santiago svæðinu ráðlagt að stunda ekki æfingar utandyra. Þess má geta að Suður-Ameríkubikarinn í knattspyrnu fer nú fram í Síle og fer næsti leikur fram á miðvikudag.

Skortur á roki og rigningu undanfarið hefur leitt til uppsöfnunar á svokölluðum PM 2.5 ögnum og hefur það umlukt borgina í reyk. Þetta efni getur borist í lungum og blóðrás og er talið geta valdið hjaratsjúkdómum og öndunarörðugleikum.