Í lok árs 2014 voru 44 milljarðar króna í reiðufé í umferð fyrir utan Seðlabanka og innlánsstofnanir. Það er 2,4 milljörðum meira reiðufé í umferð en árið áður eða 5,8% samanborið við 1,8% árið á undan. Þetta kemur fram í Fjármálainnviðum Seðlabanka Íslands sem birtir voru í gær.

Þar segir að tólf mánaða aukning reiðufjár til októberloka 2015 var 9,5% en nafnverðsaukning ársins verður ekki að fullu skýrð með verðbólgu og hagvexti að mati Seðlabankans. Þar er fyrst og fremst verið að vísa til fjölgunar ferðamanna á árinu.

Í inngangi skýrslunnar kemur þó fram að til lengri tíma litið má ætla að hlutdeild reiðufjár í greiðslumiðlun fari lækkandi jafnt hérlendis sem erlendis vegna örrar þróunar rafrænna greiðslumiðla.

1.200 tonn af mynt

Í skýrslunni segir að í árslok 2014 voru 2,9 milljarðar króna af mynt í umferð fyrir utan Seðlabanka Íslands. Aukning á árinu 2014 var 144 milljónir króna eða 5,2%, en var 6,2% árið á undan.

Tólf mánaða aukning myntar í umferð utan Seðlabanka til októberloka 2015 var 6,5%. Í lok október 2015 voru um 211 milljónir af mynt í umferð og þyngd þeirra er um 1.200 tonn.

Hlutdeild 100 krónupeningsins af verðmæti myntar í umferð er 59,8% og mest er af krónupeningum í umferð eða 109,5 milljónir stykkja.

Í árslok 2014 nam verðmæti seðla í umferð utan Seðlabankans um 47 milljörðum króna. Þetta gera 13,7 milljónir seðla.

Hér má lesa Fjármálainnviði í heild sinni.